Heiti Baujunnar
Sjálfstyrkingu mína nefni ég Baujuna og er það heiti vel við hæfi. Baujur vísa sjófarendum veginn og eru þeim lífsnauðsynleg kennileiti. Baujan er öryggi þeirra. Það þarf að standa baujuvakt í öllum veðrum. Aðferð Baujunnar eru vegvísar öllu fólki hvort sem er á sjó eða landi.
Baujan flýtur á sjónum. Baujan þarf að geta flotið svo hún veiti okkur öryggi. Flot baujunnar vísar beint til undirstöðu Baujunnar sem er meðvituð öndun. Allir þeir sem þekkja sund og köfun vita að það fer eftir því hvar og hvernig við öndum hvort við getum flotið. Við fljótum ef við erum vel tengd maganum okkar, öndum í slökun.
Einnig kenni ég sjálfstyrkingaraðferð mína við Baujuna þar sem ég er sjálf kölluð Bauja. Lógó Baujunnar á sér langa sögu. Upphaf þess er þetta gamla rifrildi úr handklæði sem ég hef geymt síðan ég fékk það 4-5 ára gömul. Þessa fallegu bauju úti á sjó með flaggi, merktu BT (Bauja Thóroddsen) hönnuðu og saumuðu mamma og pabbi, Ásdís og Sigurður og gáfu mér lítilli.