Reiði
Tilfinningar eru misauðveldar viðfangs
og er reiði sú tilfinning sem flestum
gengur erfiðast að glíma við. Hún er
margslungin, lýsir sér á marga ólíka
vegu og rætur hennar eru oft óljósar.
Því þarf að veita henni sérstaka áherslu og góða athygli.
Heilbrigð reiði er vitanlega nauðsynleg. Hún lætur okkur vita hvenær farið er yfir okkar eða annarra þolmörk. En reiðin óhefluð og stjórnlaus getur verið lífshættuleg þeim sem hana ber og ekki síður umhverfinu. Hún leiðir til ofbeldis jafnt innávið (sjálfseyðing) sem útávið og er ofbeldi í íslensku þjóðfélagi vaxandi vandamál. Það er því mjög mikilvægt að læra á þessa flóknu tilfinningu, til að auka almenna vellíðan og stuðla að ástríkara þjóðfélagi.
Undirrituð hefur um langa hríð kennt börnum og unglingum að skoða og kynnast tilfinningum sínum og aðstoðað þau við reiðistjórnun. Reiði er yfirleitt sú tilfinning sem börnin eiga erfiðast með hjá sjálfum sér og er það ólýsanleg ánægja að fylgjast með barni sem nær stjórn yfir þessari miklu orku sem reiðin er, eftir langt vanlíðunar tímabil.
Barnið fyllist þá sjálfsöryggi og gleði yfir því að hafa stjórnina á sjálfu sér í eigin höndum. Ef reiðin stjórnar einstaklingnum en ekki öfugt skapast mikil vanlíðan og hætta.
Við fæðumst ekki með þekkinguna heldur öflum við hennar.
Yfirleitt verður sérhver að fást við þessa erfiðu tilfinningu af eigin rammleik því lítið er kennt um þessa hluti í íslenska skólakefinu enn sem komið er. Vonandi er að gagnger breyting verði þar á í nánustu framtíð, þannig að næstu kynslóðir barna okkar fái með skólagöngu sinni einhvern þekkingargrunn á tilfinningum sem þau geti byggt á til að verða betur undir lífið búin sem sterkari og hæfari einstaklingar. „Mennt er máttur“ á við í þessu tilviki sem öðru.
Skoðum reiðina nánar og veltum því fyrir okkur hvað reiði er, hvernig hún birtist okkur og hefur áhrif bæði sem jákvætt og neikvætt afl. Skoðum jafnframt þá möguleika sem við höfum til reiðistjórnunar.
Reiðin er sannarlega jafn mikilvæg öllum öðrum tilfinningum okkar. Reiðin er tilfinning sem kemur og fer ef allt er eðlilegt. Kemur og lætur okkur vita um ógnun eða óréttlæti af einhverju tagi en fer jafnharðan svo við fáum einbeitingu og ró til að bregðast rétt við hinum ógnandi aðstæðum. Þarna er reiðin jákvætt afl, vörn okkar og styrkur sem hjálpar okkur við að halda velli í oft erfiðum heimi. Ef hún hinsvegar kemur til okkar en ætlar sér síðan að sitja sem fastast innra með okkur og hafa áhrif á gerðir okkar í framhaldi er hún farin að spilla fyrir okkur. Hún tekur af okkur stjórnina en við bíðum lægri hlut. Þegar reiðin er farin að leggja undir sig litróf tilfinninganna og lita persónuleikann meira og minna af reiði stefnir í óefni ef ekkert er að gert.
Að reiðin hreiðri um sig og verði mótandi afl persónuleikans gerist einkum ef fólk hefur lent í áföllum, yfirleitt ofbeldi af einhverju tagi og ekki fengið tilhlýðilega hjálp. Sjálfstraustið hefur beðið hnekki. Sú staða getur leitt til þess að fórnarlamb aðstæðna fari sjálft að beita ofbeldi síðar meir. Rannsóknir sýna að flestir þeir sem beita ofbeldi á fullorðnisárum hafa sjálfir verið beittir ofbeldi. Hér á Íslandi er heimilisofbeldi algengasta form ofbeldis hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Þolendum ofbbeldis þyrfti að koma til hjálpar svo þau læri að virkja reiði sína á jákvæðan og uppbyggjandi hátt en sitji ekki uppi með hana og yfirfæri yfir á næstu kynslóðir.
Reiði sem situr í einstaklingi og fær að vera þar óáreitt kemur í veg fyrir að viðkomandi geti notið lífs síns til fulls. Hún getur farið að lita og hafa áhrif á allar aðrar tilfinningar okkar. Reiðin verður þá að einskonar fötlun sem þrengir að allri yfirsýn. Hún lætur fólk misskilja aðstæður og skilaboð frá umhverfi verða rangtúlkuð. Ofsóknarhugmyndir eru algengar ásamt mikilli minnimáttarkennd og rangar ályktanir eru dregnar.
Einbeiting til náms eða starfa verður að sjálfsögðu ekki mikil. Reiðin er persónuleikavandamál sem þarf að leysa. Að framangreindu er ljóst að öll umræða og kennsla um reiði og ofbeldi er mikilvægt forvarnarstarf.
Eðli og birtingarmyndir reiðinnar eru mismunandi. Hún getur komið í köstum við ólíklegustu aðstæður, gosið upp við orð eða tillit og snúið öllu á annan endan á engri stund.
Þeir sem láta allt vaða, segja hluti sem betur hefðu mátt kyrrir liggja eða færu betur á að vera ræddir af tillitssemi og yfirvegun. Aðrir beita ofbeldi í reiðikasti eða láta reiðina bitna á öðru fólki síðar við aðrar aðstæður. Sumir byrgja reiðina langt innra með sér svo að utan á hana hleðst meir og meir. Það fer síðan eftir atvikum hvort reiðin springur út eða leytar sér farvegs á annan hátt t.d. í þunglyndi. Fólk höndlar reiði sína á afar ólíkan hátt en allt ber þetta að sama brunni. Það þarf að læra á reiðina til að hún stjórni ekki okkar líðan
og athöfnum!
Reiðin er andlega og líkamlega óholl. Helstu líkamleg einkenni reiðinnar eru spenna. Vöðvar herpast, röddin klemmist. Flæði adrenalíns í líkamanum eykst, öndun verður grunn og líkaminn nær ekki eðlilegri slökun. Hjartsláttur verður tíðari og svimatilfinning gerir vart við sig. Sviti sprettur út og einnig getur komið flökurleiki. Allt eru þetta einkenni mikils álags og sýnir vel hvað mikil langvarandi reiði er líkamanum óholl.
Reiðin getur verið lúmsk og dulin og það er mjög algengt að fólk láti stjórnast af reiði en hefur sjálft ekki hugmynd um það. Hún getur orðið að ómeðvituðum ávana, ósið sem við höfum kannski komið okkur upp sem vörn á erfiðleika-tímabili og okkur hefur yfirsést að leiðrétta. Þá er það ekki fyrr en við finnum léttinn sem yfir okkur kemur þegar við erum laus við fjötra reiðinnar sem við gerum okkur grein fyrir því ástandi sem verið hafði viðvarandi.
Að láta reiði stjórna lífi sínu að meira eða minna leyti er mikil sóun á hæfileikum og lífsgæðum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að það erum við sem stjórnum því hvernig okkur líður en ekki annað fólk eða aðstæður. Við sköpum reiði okkar að mestu sjálf með eigin hugsunum og kenndum.
Fyrst er að viðurkenna tilvist reiðinnar sem mörgum reynist erfitt og síðan er að fara að kynnast henni hjá sér persónulega og vinna með hana. Hvernig bregst ég við þessu eða þessu? Af hverju bregst ég við því með mikilli reiði? Er ég að nota reiðina sem stjórntæki? Er hún vörnin mín vegna minnimáttarkenndar eða tilfinningalegrar vankunnáttu? Kann ég ekki á kvíða minn, leiða, sektarkennd og læt ég því allan vanlíðan brjótast út sem reiði? Er hún gamall ávani? Nota ég hana sem spennulosun undir álagi? Er ég að ásælast skyndiorkunna, adrenalínið sem fylgir reiðinni og þrífast á henni.?
Að finna út hvað býr að baki reiðinni er skilyrði til að geta náð stjórn á henni. Læra síðan að stjórna öndun. Vera meðvituð/aður um líkama sinn, meðvituð/aður um spennu og slökun er mjög mikil hjálp við reiðistjórnun.
Djúpstæð reiði vegna ofbeldis af einhverju tagi er best yfirunnin með því að horfast í augu við hlutina og átta sig á þeim sjúkleika sem reiðin er. Yfirleitt hefur gerandinn látið stjórnast af reiði en það er á ábyrgð hvers og eins að stjórna eigin gjörðum.
Að gera fólk meðvitað og upplýst um hlut reiðinnar í almennri vellíðan og möguleika okkar til að vinna með hana eru mikilvægar forvarnir. Að geta haft stjórn á líðan okkar og verið hæf til að bera ábyrgð á eigin hegðun er undirstaða hamingjuríks lífs.
Ég vona að ég hafi með þessari samantekt minni sýnt fram á nauðsyn þess að kennsla í tilfinningavinnu sé fyrir hendi. Að vinna með reiði sína, læra reiðistjórnun jafnframt því að skoða aðrar tilfinningar sínar er sumum börnum lífsnauðsyn en öðrum holl og nauðsynleg þekking. Það er margt gott kennt í skólunum en jafn undarlegt og það er, hefur alltaf verið forðast að kenna börnum að þekkja og vinna með sínar eigin tilfinningar.
Ég ítreka það mikilvægi sem reiðikennsla og reiðistjórnun er og vona ég að fyrr en síðar verði hver skóli búinn að koma sér upp aðstöðu til að kenna öllum börnum að skoða tilfinningar sínar og vinna með þær þeim og öllu þjóðfélaginu til heilla.