Sjálfstyrking í grunnskólum, Baujan
Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar fékk 200.000 kr. styrk úr Forvarnarsjóði vorið 2003 til þess að framkvæma verkefnið ,,Byrgjum brunninn-sjálfstyrking í grunnskólum“ .
Guðbjörg Thoroddsen leikari, kennari og meðferðarráðgjafi var fengin til þess að koma inn í Lágafellsskóla skólaárið 2003-2004 með námskeið fyrir grunnskólabörn í tilfinninga kennslu og sjálfstyrkingu. Þetta er námskeið sem hún hefur þróað í gegnum meðferðarvinnu sína með börnum og unglingum. Grunnskólafulltrúi hafði kynnst vinnu Guðbjargar þegar hún vann sem námsráðgjafi í Korpuskóla en þá vann hún við flesta grunnskólanna í Grafarvogi við það að halda þetta námskeið. Vegna góðrar reynslu undirritaðrar af vinnu Guðbjargar taldi ég mikilvægt að koma þessu námskeiði Guðbjargar inn í grunnskóla Mosfellsbæjar.
Ákveðið var að gera tilraun til að meta árangur af verkefninu. Búin voru til matsblöð sem lögð voru fyrir umsjónarkennara og foreldra þeirra barna sem fóru á námskeiðin. Á sama tíma og Guðbjörg hélt námskeiðin í Lágafellsskóla hélt hún m.a. námskeið í Rimaskóla og lagði sams konar mat fyrir þar. Hugmyndin var að fá bæði fleiri til að meta áhrif verkefnisins og eins að bera saman niðurstöður.
Heimtur voru ekki góðar frá foreldrum þeirra barna sem sóttu námskeiði í Lágafellsskóla. Alls sóttu 16 nemendur námskeiðin, skiluðu sér kannanir frá foreldrum 4 barna.
Lágafellsskóli. Svör frá foreldrum: Þrír eru ánægðir og mæla með námskeiðinu. Áhrif námskeiðsins virðast vera varanleg fyrir þessi börn samkvæmt foreldrum þeirra. Smá bakslag hjá einum nemanda skömmu eftir námskeiðið en í heildina rólegri og yfirvegaðri. Líðan betri hjá þessum þremur. Eitt foreldri svarar því til að ekkert gagn hafi verið af námskeiðinu.
Svör frá 6 kennurum: Allir kennararnir vildu mæla með þessu námskeiði fyrir börnin við aðra kennara og foreldra.
Það skal tekið fram að þegar þessi námskeið hefjast í grunnskólum eru „veikustu“ nemendunum vísað fyrst á námskeiðin. Sum þessara barna eru það „veik“ að þau geta ekki nýtt sér þetta tilboð en önnur geta það.
Rimaskóli. Foreldrar eru undantekningalaust ánægðir með námskeiðið og vilja mæla með því við aðra foreldra. Kennara vilja einnig undantekningarlaust mæla með námskeiðinu við aðra kennara og foreldra.
Lokaorð. Starfsfólk grunnskólanna er sammála um að það vanti úrræði eða leiðir til þess að taka á þeim vanda sem blasir við í uppeldi barna og unglinga þ.e. að styrkja sjálfsmynd þeirra til þess að takast á við þau vandamál og áreiti sem þau eiga eftir að mæta í lífinu. Með því að grípa nógu fljótt inn í og veita þessum börnum markvissa uppbyggingu sjálfsmyndar og tilfinningatjáningar er hægt að fyrirbyggja vandamál sem upp kunna að koma síðar.
Sterk sjálfsmynd barna og unglinga getur dregið úr einelti og ofbeldishegðun og stuðlað að því að börn og unglingar leiðist síður út í vímuefnaneyslu, dregið úr þunglyndi og kemur í veg fyrir sjálfseyðileggingarhvatir ungmenna.
Baujan er ein þeirra aðferða sem hægt er að nota í grunnskólanum til þess að styrkja sjálfsmynd barna og unglinga. Aðferð Baujunnar hefur reynst áhrifamikil, skilað góðum árangri á skömmum tíma og reynst nemendum heilladrjúgt veganesti.
Það er því fagnaðarefni að skapari námskeiðsins Guðbjörg Thoroddsen ákvað að halda námskeið fyrir fagfólk þar sem hún þjálfar starfsfólk grunnskólana til þess að halda þessi námskeið. Þannig verða skólarnir sjálfbærir. Þeim mun fleiri nemendur sem taka þessi námskeið þeim mun líklegra að fleiri geti staðist neikvæð áreiti samfélagsins og geti staðið fast á sínu.
Allir hafa þörf fyrir námskeið eins og Baujuna. Einstaklingur sem er sáttur við sjálfan sig og öruggur með sínar tilfinningar er líklegri til þess að segja nei við vímuefnum og öðrum óheilbrigðum lífsstíl og komast heill og óskaddaður frá áföllum.
Vegna alls þessa teljum því styrk okkar í „Byrgjum brunninn“ hafa verið vel varið með kynningu Baujunnar. Námskeiðið Baujan er verðugt kennsluefni í grunnskólum sem annars staðar, það er vel hannað og samansett sem kemur markmiðum öllum vel til skil. Mosfellsbæ 21. júní 2004-06-2
Sólborg Alda Pétursdóttir grunnskólafulltrúi
Ath. Könnunina í heild sinni má nálagast með því að senda póst á baujan.is